Inga Kristjáns

Jáskorun í júlí

Sumarmánuðir eru rólegir hjá næringarþerapistanum og þá er annað hvort að láta sér leiðast eða finna uppá einhverju nýju.
  
Þess vegna datt mér í hug að gera svolítið skemmtilegt og vonandi láta gott af mér leiða í leiðinni.
Ég elska svona ”winwin” dæmi, þegar bæði ég og aðrir hafa gaman og gott af því sem ég geri.

Jáskorun í júli (mér finnst jáskorun mun fallegra orð en áskorun...) er eitthvað sem fæddist í kollinum á mér klukkan fimm að morgni, svona eins og gengur og hugmyndin lét mig ekki í friði. 
Þannig ég bara ákvað að kíla á verkefnið.

Þetta snýst um að ég kem fram með fjórar jáskoranir, eina á viku í allan júlí. 
Mig langar svo að sýna fram á að sumarfrí og ferðalög þurfa ekki að setja heilsu og líðan á hliðina, heldur eru ótrúlega einföld ráð sem virka og hjálpa til við að halda gleðinni og heilsunni gangandi.

Þessar jáskoranir eru þannig að allir, nákvæmlega allir geta tekið þátt!

Jáskorun í júlí fer fram í Facebook hópi og er algjörlega ókeypis og án allra skuldbindinga. 
Það hangir ekkert á spítunni.
Ég bara hvet þig til að taka þátt og skella þér inn í hópinn! 
Þú þarft bara að segja já!

Hér er slóðin:
12 Mar, 2023
Ég fæ oft spurninguna...“Ef ég ætla að gera vel við mig og fá mér einhverskonar gosdrykk, hvað er þá skárri kostur, með sykri eða gervisykri?“ Fyrst ætla ég að vera hrútleiðinleg og segja...hvorugt er gott! Ég á eiginleg ekki gott með að mæla með öðrum kostinum fram yfir hinn og hugsanlega myndi ég bara ekkert gera það heldur reyna að benda á aðra kosti. En hverjir eru þeir þá? Ef einstaklingur er til dæmis að forðast sykur og vill fá sér eitthvað gott, hvað gæti það þá eiginlega verið? Einmitt, það er nefnilega fátt um fína drætti. Langflestir sykurlausir drykkir eru fullir af ömurlegum týpum gervisykurs og til að toppa vitleysuna, þá kalla framleiðendur þessa drykki „heilsuvörur“. Ég varð til dæmi mjög svekkt þegar ákveðinn, frekar kúl drykkur kom fram á sjónarsviðið fyrir allnokkrum árum síðan. Drykkur með kollageni, mjög svalt dæmi. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að þessi drykkur inniheldur glataðan ódýran gervisykur. Vonandi eykst úrvalið hérlendis á gæða sykurlausum drykkjum í kjölfar aukinnar umræðu um skaðsemi gervisykurs. Vonandi! En fram að því, hvað getum við þá annað drukkið en pínu leiðigjarnt kranavatnið? Við getum alveg útbúið okkur holla, bragðgóða og dásamlega drykki sjálf. Það er hægt að nota vatn eða sódavatn sem grunn. Svo er hægt að bæta samanvið allskonar fíneríi. Til dæmis myntu, lime, sítrónu, appelsínu, gúrku, berjum og fleiru slíku. Svo kemur leynihráefnið.... Til að losna við sykur eða gervisykur er upplagt að nota stevíudropa sem fást bæði hreinir og með ýmsum bragðefnum. Það þarf rosalega lítið af þeim, jafnvel ekki nema 1-2 dropa í 1/2 l af drykk. Prófið ykkur áfram, sleppið ykkur lausum í tilraunir og ég lofa þetta mun bragðast vel og líkami og sál munu þakka fyrir sig.
21 Dec, 2022
Jólin eru tími til að njóta, en við nennum samt ekki að vera að drepast í maganum og meltingunni...er það? Margir höndla hátíðarmatinn og breytt mataræði ágætlega en ég myndi halda að meirihluti fullorðinna gæti verið í dálitlum vandræðum með meltinguna sína. Þess vegna tók ég saman lítinn lista yfir ýmislegt sem er hægt að gera og taka inn, svona fyrir ykkur sem eruð pínu í veseni með þetta. Þetta er auðvitað langt frá því að vera tæmandi listi, en getur virkað sem hugmyndabanki fyrir einhverja. 1. Sítróna: Volgt vatn með sítrónu getur gert kraftaverk, sé það drukkið á fastandi maga á morgnana eða fyrir stóra máltíð. Sítróna örvar meltinguna til góðra verka. 2. Meltingarhvetjandi jurtir: Ýmsar blöndur eru til, sem örva framleiðslu líkamans á meltingarensímum og galli. Takist með máltíðum. 3. Meltingarensím: Geta hjálpað til við niðurbrot fæðunnar og sérstaklega þegar meltingin er undir miklu álagi eins og á jólum og stórhátíðum. Takist fyrir eða með máltíðum. 4. Betain HCL: Sýra í töfluformi sem getur hjálpað til við niðurbrot fæðu, sérstaklega próteinríkrar fæðu, s.s. kjöts. Takist með máltíðum. 5. Meltingargerlar (probiotics): Hjálpa til við að byggja upp og viðhalda æskilegri þarmaflóru og halda vindstigunum í skefjun... Takist gjarnan kvölds og morgna á álagstímum. 6. Margar fleiri jurtir og hjálparefni eru til sem geta gagnast meltingarfærunum. S.s. regnálmur, fjallagrös, Tryphala og fl. 7. Magnesíum: Ef allt stíflast og fer í vesen, þá getur magnesíum (sítrat til dæmis) hjálpað til við að losa. 8. Mjólkurþistill: Flott jurt til að styðja við lifrina ef hún hugsanlega er undir meira álagi en venjulega. 9. Það er hægt að fá ýmislegt sem virkar vatnslosandi, ef blessaður bjúgurinn safnast fyrir. Persónulega finnst mér nettlu te virka best. 10. Sleppið svo samviskubitinu, þó þið borðið eitthvað sem er pínu djúsí og gott. Meltingin virkar miklu betur án samviskubits og það hefur aldrei neinn grætt á því að rífa sig niður í svaðið fyrir Nóa konfekt eða tertusneið. Gleðileg jól!
14 Dec, 2022
Ég vil nú byrja á að minnast á að í mínum huga er orðið „kerling“ bara alls ekki neikvætt, svo það sé nú sagt. Aftur á móti ef ég stafset það „kelling“ þá er það allt annað mál. En að aðalatriðinu... Ég segi fyrir mig, að ég nenni ekki að verða lasburða og veikur heldri borgari. Ég vil lifa heilbrigðu og innihaldsríku lífi. Vera virk, hreyfa mig og njóta hvers dags. Ég vil gera allt sem ég get til að vera heilbrigð, líkamlega sem andlega. Þú gætir sagt, „Já en kona góð, þú ræður því nú ekkert!“ Mitt svar er, „jú víst!“ Að miklu leiti... Auðvitað getur allskonar komið uppá, óvænt veikindi, slys og guð einn veit hvað, en að mestu leiti vil ég meina að ég og þið öll, stjórnið þessu dálítið mikið sjálf. Það er ekki bara mín skoðun, heldur einnig ótal margra vísindamanna sem eru þessa dagana á kafi við að skoða orsakir sjúkdóma sem hellast yfir heimsbyggðina eins og faraldur þessi árin. Sjónir þeirra beinast að þessum svokölluðu bólgusjúkdómum, sem eru nánast allir sjúkdómar sem þú finnur í orðabókinni. Gigtar og sjálfsónæmissjúkdómar, húðsjúkdómar, meltingarfærasjúkdómar, hjarta og æðasjúkdómar, sykursýki, þunglyndi, kvíði, lifrarsjúkdómar, astmi og öndunarfærasjúkdómar, Parkinson´s, krabbamein, Alzheimer´s... listinn er langur. Munum við þróa með okkur þessa sjúkdóma? Við ráðum því að þó nokkru leiti sjálf, í alvöru! Auðvitað getur verið að við séum innbyggð með einhver skrattans leiðinda gen, sem segja að við séum viðkvæm fyrir einhverjum þessara sjúkdóma, en við getum samt gert svo mikið sjálf til að koma í veg fyrir að þau nái yfirhöndinni. Ég sé genin fyrir mér eins og loftljós með dimmer... Ef við erum í ruglinu í mataræðinu og sykurneyslunni, allt of stressuð, hreyfum okkur ekki reglulega, jafnvel reykjum, drekkum of mikið, vantar ákveðin næringarefni, vítamín og steinefni þá er fjandinn laus og loftljósið (genin) ná upp miklu ljósi og styrk. Ef við aftur á móti pössum að halda blóðsykrinum jöfnum með rétt samsettu mataræði (berja niður sykurlöngunina með " kolvetnakápum " og fleiru), iðka streitulosun, hreyfum okkur reglulega, pössum að fá nægilegt magn helstu vítamína og steinefna, þá er líklegt að við náum að halda ljósinu í kósý lágmarki og genin ná ekki að stjórna aðstæðunum. Ég allavega vil gera allt sem ég get til þess að verða hress eldri kerling og ég veit að þið viljið það örugglega flest líka. Ég labbaði uppá fjall hér í Colorado í september. Svolítið hátt fjall, yfir 4300 metrar á toppinn. Þetta var alveg ágætis áskorun fyrir mig, loftið þunnt, það var kalt og labbið langt. Þegar við vorum alveg að koma á toppinn, þá mættum við hjónum. Þau voru bæði í kringum áttrætt. Ógeðslega flott og í geggjuðu formi. Ég mun aldrei nokkurn tíma gleyma þessu fólki. Þau eru greypt inn í minnið og í hvert skipti sem ég verð eitthvað aðeins of kærulaus varðandi lífstílinn, þá gref ég upp þessa minningu. Ég ætla að verða eins og þau. Heilbrigður lífstíll er ekkert meinlæta leiðinda líf. Það að stjórna blóðsykri snýst til dæmis ekkert um boð og bönn, heldur ákveðna tækni, sem allir geta tileinkað sér, sama á hvaða mataræði viðkomandi er. Þú getur líka unnið með þetta, það er auðveldara og miklu skemmtilegra en þú heldur, ég lofa. Ég ætla að byrja fjögurra vikna netnámskeið þann 10.janúar – Sigrumst á sykrinum. Á þessu námskeiði kenni ég þér hvernig þú getur komið böndum á sykurlöngun og komið jafnvægi á blóðsykurinn, sem er að mínu mati það mikilvægasta þegar kemur að forvörnum og meðhöndlun þessara áðurnefndu bólgusjúkdóma. Ég kenni þér nýja hugsun, er með aðeins öðruvísi nálgun en þú hefur kannski séð áður og lofa að vera skemmtileg og alls ekki ýkt! Þú getur séð meira um námskeiðið hér og skráð þig : Ég hlakka til að vera með þér í janúar. .
Fleiri færslur
Share by: